Lífið

Lífseigari en allir áttu von á

Eins og að hjóla Todmobile 2009 – heldur upp á 20 ára afmælið.Fréttablaðið/Vilhelm
Eins og að hjóla Todmobile 2009 – heldur upp á 20 ára afmælið.Fréttablaðið/Vilhelm

Afmælistónleikar Todmobile eru í Óperunni í kvöld. Eyþór Arnalds segist engu hafa gleymt þótt hann hafi einbeitt sér að öðru en tónlist að undanförnu.

„Þetta er eins og að hjóla, gleymist ekkert þótt maður geri eitthvað annað á milli. Þetta er allt í fingrunum á manni. Verst að siggið er alveg farið af puttunum. Þetta er þó allt að koma,“ segir Eyþór Arnalds, sellóleikari og söngvari Todmobile. Hann hefur staðið í ströngu með félögum sínum við að æfa fyrir tónleika í Íslensku óperunni í kvöld. Það er verið að halda upp á að nú eru liðin tuttugu ár síðan fyrsta plata Todmobile kom út.

„Við héldum einmitt útgáfutónleika í Óperunni þá líka. Það þótti mörgum bratt því þetta voru fyrstu tónleikarnir okkar,“ segir Eyþór. „Bandið er lífseigara en allir áttu von á. Þetta átti bara að vera hliðarverkefni með tónsmíðadeildinni sem við Þorvaldur vorum í. En ég veit svo sem ekki hvort það verður haldið upp á fimmtíu ára afmælið.“

Hljómsveitin hefur aldrei hætt, en spilað mismikið; síðast á afmælistónleikum Kaupþings á Laugardalsvelli haustið 2007. „Það gigg var tímanna tákn og það hefur margt breyst síðan þá. Ég vona að tónlist Todmobile sé kreppuvæn,“ segir Eyþór.

Mikill safnpakki kemur út með bandinu í dag. Pakkinn heitir Spiladósin og inniheldur tvo tóndiska og einn mynddisk. Tvö ný lög má finna í pakkanum, annað þeirra heitir „Ert ekkjað djókí mér“ og er með hrunatexta eftir Andreu Gylfa.

Finnst Eyþóri ekkert erfitt að svissa úr sveitarstjórnarmálunum á Selfossi í Todmobile-poppið? „Nei, nei, það hefur aldrei truflað mig að sinna mörgu í einu. Samfélagið er fullt af sérfræðingum og því þykir kannski skrítið að hægt sé að gera fleira en eitt í einu. Afi minn var bóndi, en hann sá líka um rafstöðina og reri til fiskjar. Mér finnst þetta frekar spurning um að gera eitthvað skemmtilegt og að gera uppgötvanir. Það er fátt leiðinlegra en að endurtaka sig. Þess vegna reynum við alltaf að bæta einhverju við í hvert skipti sem við spilum og prófa eitthvað nýtt.“

Og stutta hárið kemur ekki að sök í að ná upp fílingi á sellóinu. „Nú sveiflar maður bara hrosshárinu í boganum í staðinn. Það er svo sem ekki líffræðilega útilokað að ég safni faxi aftur, en ég stórefast um að það gerist. Allt hefur sinn tíma.“

Langt er síðan uppselt varð á tónleikana í Íslensku óperunni í kvöld og verða aukatónleikar haldnir miðvikudaginn 18. nóvember á sama stað. drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.