Handbolti

Heimir: Tek þetta að stórum hluta á mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Örn í leik með Val í fyrra en hann leikur nú með Akureyri.
Heimir Örn í leik með Val í fyrra en hann leikur nú með Akureyri. Mynd/Anton

Heimir Örn Árnason mætti í kvöld á sinn gamla heimavöll en þurfti að sætta sig við tap er Valur vann sigur á Akureyri, 23-19.

Heimir fór frá Val til Akureyrar í sumar en sagði að það hefði ekki skipt sig neinu sérstöku máli að fyrsti deildarleikurinn færi fram í Vodafone-höllinni.

„Nei, svo sem ekki. Ég er fyrst og fremst svekktur með tapið. Ég tek tapið á stórum hluta á mig. Ég var bara eins og byrjandi í sókninni. Það var vitað að við myndum spila góðan varnarleik sem við gerðum. En við verðum að biðja Hafþór (Einarsson, markvörð Akureyrar) afsökunar á frammistöðu okkar í dag," sagði Heimir.

Leikurinn var kaflaskiptur en Val tókst að síga fram úr á lokamínútum leiksins og tryggja sér sigurinn. „Það sem gerðist hjá okkur var að menn hættu að vinna saman sem lið og fóru að taka skot sem einstaklingar, þar á meðal ég og Árni (Sigtryggsson). Árni var búinn að spila mjög vel og við hefðum átt að spila betur fyrir hann."

„En ég vona að sóknarleikurinn batni nú þegar að Jónatan (Magnússon) og Guðmundur (Hólmar Helgason) komist á fullt. Við erum alla vega mjög svekktir núna og förum svekktir heim."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×