Innlent

Atvinnuauglýsingum fjölgar

byggingavinna Auglýsingum vegna byggingavinnu fjölgar ekki að sögn Gunnars. fréttablaðið/anton
byggingavinna Auglýsingum vegna byggingavinnu fjölgar ekki að sögn Gunnars. fréttablaðið/anton

atvinna Rúmlega tuttugu prósentum fleiri atvinnuauglýsingar birtust í dagblöðum fyrstu sjö mánuði ársins en á sama tíma í fyrra.

Fjöldi atvinnuauglýsinga var 3.480 í fyrra en fyrstu sjö mánuði ársins í ár voru þær 2.457, eða um sjötíu prósent af heildarfjöldanum í fyrra.

„Þetta er staðfesting á því sem maður hefur haft á tilfinningunni í vor. Ég veit að allir sem eru í ráðningum eru alveg sama sinnis um það," segir Gunnar Haugen, framkvæmdastjóri Capacent ráðninga. Atvinnumarkaðurinn hafi verið að taka við sér. Þó sé oft um sérfræðistörf að ræða.

„Fyrirtæki eru að eyða meiri peningum í auglýsingar, sem sýnir raunverulegan vilja til að bæta við sig fólki." Gunnar bendir á að ekki sé verið að mæla fjölda starfa heldur fjölda auglýsinga, en að meðaltali séu sennilega fleiri en eitt starf auglýst í hvert sinn.

„Þetta spilar með mörgu sem er að gerast, til dæmis því að væntingavísitalan er farin upp, og gengisvísitalan líka," segir Gunnar og bætir því við að þetta sé vonandi til marks um meiri bjartsýni í atvinnulífinu. Á því sé þörf. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×