Körfubolti

Shaq ánægður í Cleveland: Skemmtilegsta liðið sem ég hef verið í

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal (33) og Lebron James (23).
Shaquille O'Neal (33) og Lebron James (23). Mynd/AP

Shaquille O'Neal er að finna sig vel í skugga LeBron James hjá Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta. Miðherjinn með stóra skrokkinn og stóra brosið gæti verið á leiðinni að vinna NBA-titilinn með sínu þriðja liði ef Cleveland heldur áfram að spila jafnvel og liðið hefur gert að undanförnu.

„Þetta er fyndnasta og skemmtilegasta liðið sem ég hef verið í á mínum ferli. Þetta er frábær og samheldinni hópur," segir Shaquille O'Neal.

Cleveland er búið að vinna þrettán leiki í röð og er með besta árangurinn í allri NBA-deildinni - 43 sigra og aðeins 11 töp. Shaquille O'Neal hefur skorað 11,5 stig og tekið 6,6 fráköst á 23,0 mínútum með liðinu í vetur. Aðallmaður liðsins er og verður LeBron James.

„Þetta er hans sýning og ég er bara að reyna að hjálpa honum að líta vel út. Ef við værum á sama aldri þá væri kannski rafmagnaðra andrúmsloft en ég er á leiðinni út úr deildinni," sagði O'Neal í léttum tón.

„Ég er hér til þjónustu reiðubúinn, James kóngur," bætti hann við en það fylgir sögunni að uppáhaldsleikmaður allra þriggja sona hans er ... að sjálfsögðu LeBron James.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×