Viðskipti innlent

ÍLS tapar 1,7 milljarði, sjóðurinn á nú 739 íbúðir

Tapið af rekstri Íbúðalánasjóðs (ÍLS) á fyrstu sex mánuðum ársins nam tæpum 1,7 milljarði kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé sjóðsins í lok júní nam 8.4 milljörðum kr. og er eiginfjárhlutfallið því komið niður í 2,1%. Sjóðurinn á nú orðið 739 íbúðir sem hann hefur leyst til sín.

Langtímamarkmið sjóðsins er að eiginfjárhlutfallið sé yfir 5,0%. Félags- og tryggingamálaráðherra hefur skipað vinnuhóp sem ætlað er að fjalla um eiginfjárhlutfall sjóðsins og leggja fyrir stjórn tillögur í þeim efnum. Vinnuhópurinn mun skila niðurstöðum sínum síðar á árinu.

Í tilkynningu segir að árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2010 var staðfestur og undirritaður af stjórn sjóðsins í dag.

Virðisrýrnun útlána nam 3,7 milljörðum kr. í lok júní 2010 og hækkaði um 572 milljónir kr. á tímabilinu. Vanskil hafa aukist á árinu 2010 og eru 6,3% lántakenda sjóðsins með einn eða fleiri gjalddaga í vanskilum í lok júní 2010 samanborið við 5,3% lántakenda í árslok 2009.

Frá áramótum hefur sjóðurinn leyst til sín 392 íbúðir til fullnustu krafna. Íbúðir í eigu sjóðsins voru 739 í lok júní 2010.

Meðal krafna á lánastofnanir í lok júní 2010 eru eignfærðar 2.352 millj. kr. vegna krafna á Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Straum - Burðarás fjárfestingarbanka hf. og eru þær óbreyttar frá árslokum 2009. Í uppgjöri sjóðsins er gengið út frá að hann eigi rétt á skuldajöfnun. Óvissa er um uppgjör krafna og afleiðusamninga ásamt heimild sjóðsins til skuldajöfnunar. Tap sjóðsins getur því orðið annað þegar endanleg uppgjör fara fram.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×