Erlent

Íransforseti gerir lítið úr hótunum um frekari þvinganir

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti segist alls óhræddur við það að Vesturveldin setji enn strangari viðskiptaþvinganir á Íran eins og hótað hefur verið. Í ræðu sem forsetinn hélt í dag kom fram að þvinganir þjöppuðu þjóð hans aðeins saman og gerðu hana óháðari öðrum þegar kæmi að tækniframförum og rannsóknum.

Forsetinn gerði einnig lítið úr tilboði Baracks Obama um að setjast að samningaborði og sagði að „þrjú eða fjögur vinsamleg orð" þýði ekki að Obama hafi breytt utanríkisstefnu Bandaríkjanna. „Þeir segjast hafa rétt úr sáttahönd til Írans en Íranska þjóðin og ríkisstjórnin hafa ákveðið að hafna tilboðum þeirra," sagði Ahmadinejad.

Á fimmtudaginn var sagði Obama að vesturveldin væru í startholunum með frekari viðskiptaþvinganir láti Íranar ekki af tilraunum sínum til að auðga úran og hefja kjarnorkuframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×