Innlent

Jón Ásgeir segist ætla að skila stuttum eignalista

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Lögmenn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vinna að því að útbúa lista yfir eignir hans sem honum ber að skila á morgun. Hann segir listann ekki langan en honum verði skilað áður en að fresturinn rennur út.

Fyrstu viðbrögð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar eftir að fréttir bárust af stefnu slitastjórnar Glitnis einkenndust af uppgjöf. Í viðtali við fréttaveituna Bloomberg sagðist hann lítið geta gert í ljósi þess að eignir hans hefðu verið kyrrsettar og því gæti hann ekki varist í málinu, enda myndi það kosta gríðarlega háar fjárhæðir.

Eftir að hafa ráðfært sig við breska og bandaríska lögmenn hefur Jón Ásgeir ákveðið að verjast í málinu. Lögmenn hans í Bretlandi tóku við stefnunni í gær sem og kröfu um kyrrsetningu eigna hans um allan heim. Hann hefur til hádegis á morgun til að skila inn lista yfir allar eigur sínar til dómstóls í Bretlandi, að öðrum kosti á hann yfir höfði sér fangelsisvist. Í samtali við fréttastofu sagði Jón Ásgeir að lögmenn hans vinni nú að því að skrifa listann. Honum verði skilað innan þess tíma sem honum er gefinn.

Þá hefur Jón Ásgeir stigið úr stjórn House of Fraser samkvæmt frétt í Financial Times í dag.

Slitastjórnin sendi einnig kyrrsetningarbeiðnir inn til sýslumannsins í Reykjavík. Krafist var að eignir Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldssonar og Lárusar Welding yrðu kyrrsettar. Málið var ekki afgreitt hjá sýslumanni fyrir helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×