Lífið

Söng óvæntan dúett með Tom Jones í Los Angeles

Anna Mjöll og Tom Jones syngja lagið When I Fall in Love. Á milli þeirra er stjarfur undirleikari.
Anna Mjöll og Tom Jones syngja lagið When I Fall in Love. Á milli þeirra er stjarfur undirleikari.

„Tom var æðislegur. Það varð allt vitlaust,“ segir söngkonan Anna Mjöll Ólafsdóttir.

Anna Mjöll kom fram á tónleikastaðnum Vibrato í Bel Air í Los Angeles á mánudagskvöld. Stórsöngvarinn Tom Jones var á meðal áhorfenda og Anna bauð honum að sjálfsögðu upp á svið. Tom, sem varð sjötugur 7. júní, þáði boðið og þau sungu saman lagið When I Fall in Love, sem hefur verið tekið upp af fjölmörgum listamönnum. Þar á meðal Tom sjálfum, Doris Day og Nat King Cole.

Anna segir Jones hafa verið á staðnum ásamt systur sinni, en saman voru þau að halda upp á feðradaginn. Hún var ekki viss um hvort hann myndi slá til, en segir að hún hafi hreinlega þurft að athuga það. „Þegar maður er með Tom Jones sitjandi fyrir framan sig, þá á hann að hætta að borða og koma upp á svið. Skítt með þótt hann sé svangur! Hann getur borðað seinna,“ segir Anna og hlær. „Hann kom svo bara upp með glasið sitt.“

Jones söng þrjú lög til viðbótar við það sem hann söng með Önnu og samkvæmt henni trúðu áhorfendur vart sínum eigin augum. Þá voru meðlimir hljómsveitarinnar stjarfir, enda með lifandi goðsögn fyrir framan sig. Anna segir Jones hafa verið gríðarlega fagmannlegan, enda hafi hann stigið algjörlega óundirbúinn á svið og staðið sig með mikilli prýði. „Svo var hann ofboðslega almennilegur og góður,“ segir Anna.

Eins og gefur að skilja vildu fjölmargir áhorfendur fá mynd af sér með goðinu. Hann var til í það og sendi áhorfendur hamingjusama heim. „Það reyndu allir að halda aftur af sér, en hann var voða kurteis við alla á meðan myndirnar voru teknar,“ segir Anna. „Svo var hann lengur en allir. Þegar allir voru farnir sat hann heillengi með okkur.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.