Lífið

Velur á milli Quincy Jones og Stallone

Tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen er staddur á kvikmyndahátíðinni Los Angeles Film Festival þar sem hann gekk eftir rauða dreglinum.
Tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen er staddur á kvikmyndahátíðinni Los Angeles Film Festival þar sem hann gekk eftir rauða dreglinum.

Tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen er staddur í Los Angeles um þessar mundir þar sem hann er á meðal gesta kvikmyndahátíðarinnar Los Angeles Film Festival.

Kvikmyndahátíðin fer fram í miðborg Los Angeles og er þetta í sextánda sinn sem hún er haldin. Á hátíðinni er sýndur mikill fjöldi óháðra kvikmynda, stuttmynda auk tónlistarmyndbanda og verður myndband Davíðs við lagið Supertime sýnt á hátíðinni. „Ég er staddur hérna ásamt þeim Helga Jóhannssyni, leikstjóra myndbandsins, og Hrafni Garðarssyni og hér er mikið stuð. Kanarnir elska okkur alveg hreint og við fengum meðal annars að ganga rauða dregilinn sem var mjög skemmtileg upplifun, ég hef aldrei fengið jafn mörg flass á mig á jafn stuttum tíma,“ segir söngvarinn kampakátur.

Hátíðin stendur frá 17. júní og fram til 27. júní og mun Davíð og föruneyti hans dvelja í borg englanna allan þann tíma. „Akkúrat núna er ég að reyna að gera upp við mig hvort ég eigi að eyða kvöldinu með Sylvester Stallone eða Quincy Jones. Leikarinn Ben Affleck er líka með fyrirlestur sem ég er að hugsa um að kíkja á og hér er líka opinn bar sem er stórhættulegt fyrir poppstjörnu eins og mig.“

Davíð mun ekki sitja auðum höndum þegar heim til Íslands er komið því hann mun meðal annars leika fyrir dansi á Írskum dögum á Akranesi. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.