Erlent

Fá fjögurra mánaða lokafrest

Hamid Karzai Lætur til skarar skríða gegn fyrirtækjum á borð við hið alræmda Blackwater.
nordicphotos/AFP
Hamid Karzai Lætur til skarar skríða gegn fyrirtækjum á borð við hið alræmda Blackwater. nordicphotos/AFP

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur gefið út tilskipun um að einkarekin öryggisgæslufyrirtæki verði að leggja niður alla starfsemi sína í landinu. Fá þau fjögurra mánaða frest til þess.

Karzai hefur mánuðum saman sagt þessi fyrirtæki grafa undan öryggissveitum stjórnarinnar. Annaðhvort lögregla eða her heimamanna eigi að sjá um þessi störf.

Í ræðu sinni í nóvember síðastliðnum, þegar annað kjörtímabil hans hófst, sagðist hann vilja láta loka öllum innlendum jafnt sem erlendum öryggisfyrirtækjum innan tveggja ára.

Alls eru 52 öryggisgæslufyrirtæki á skrá hjá stjórnvöldum í Afganistan, en sú skrá er ekki tæmandi. Í Afganistan starfa alls um 26 þúsund öryggis­gæslumenn fyrir Bandaríkjastjórn, þar af 19 þúsund fyrir bandaríska herinn.

Talsmaður Bandaríkjahers sagði Bandaríkjastjórn styðja þessi áform forsetans, en gat þó ekki svarað því hvort farið yrði að kröfum hans um lokafrest.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×