Viðskipti erlent

Axcel hagnast um 280 milljarða á Pandóru

Fjárfestingarsjóðurinn Axcel III hefur hagnast um 14 milljarða danskra kr. eða um 280 milljarða kr. á skráningu skartgripaframleiðandans Pandóru á markað í Kaupmannahöfn í dag. Meðal eigenda Axcel er FIH bankinn og munu bæði Seðlabanki Íslands og skilanefnd Kaupþings njóta góðs af ótrúlegu gengi Pandóru.

Samkvæmt frétt á business.dk átti Axcel 60% hlut í Pandóru fyrir skráninguna en hlutinn keypti sjóðurinn fyrir 2 milljarða danskra kr. fyrir tveimur árum. Sjóðurinn hefur í dag selt hluti fyrir 6 milljarða danskra kr. og á enn eignarhlut sem metinn er á rúma 10 milljarða danskra kr. í Pandóru.

Business.dk segir að kaupin á 60% hlut í Pandóru fyrir tveimur árum séu með bestu viðskiptum í sögu Danmerkur. Pandóra sé nú orðið að áttunda verðmætasta fyrirtæki Danmerkur.

Eins og fram kom í fréttum þegar Seðlabanki Íslands og skilanefnd Kaupþings seldu FIH bankann var ákvæði í kaupsamningnum um að seljendur myndu njóta góðs af framtíðarhagnaði Axcel. Þessi upphæð gæti numið allt að einum milljarði danskra kr. eða 20 milljörðum kr., ef allt færi á besta veg. Óhætt er að segja að miðað við viðtökurnar á skráningu Pandóru að allt hafi farið á besta veg fyrir Seðlabankann og skilanefnd Kaupþings.

Fyrir utan FIH eru eigendur Axcel meðal nokkurra af þekktustu fjárfestum Danmerkur auk Lego fjölskyldunnar , Nordea bankans og Bestseller fjölskyldunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×