Viðskipti erlent

Eik Banki ætlar að hætta rekstri í Danmörku

Eik Banki ætlar að hætta rekstri sínum og umsvifum í Danmörku og einbeita sér að heimamarkaði sínum í Færeyjum. Þetta kemur fram á vefsíðunni Direkt.

Eins og fram hefur komið í fréttum í morgun hefur verð á hlutabréfum í Eik Banki hrapað í kauphöllinni í Kaupmannahöfn eða um 40% frá opnun markaðarins í morgun. Um tíma höfðu bréfin fallið um 57% en sú lækkun hefur að hluta til gengið til baka.

Ástæðan fyrir þessu hrapi eru tilkynningar um að bankinn þurfi að auka afskriftir sínar og einnig auka eigið fé og greiðsluþol að kröfu danska fjármálaeftirlitsins. Jafnframt var skipt um yfirstjórn bankans.

Í Direkt segir að verið sé að vinna að ýmsum málum og uppstokkun í Eik Banki og er sala á öllum eignum bankans í Danmörku þar á meðal.

John Norden hjá MyBanker segir að með í sölunni verði 100.000 viðskiptavinir Eik Banki í Danmörku og það verði spennandi að sjá hverjir hafi áhuga á að kaupa þann pakka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×