Íslenski boltinn

Umfjöllun: Lánið lék við kærulausa KR-inga

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
KR var stálheppið að komast í undanúrslit VISA-bikars karla í kvöld. Liðið vann Þrótt 3-2 á heimavelli en fékk á sig tvö mörk undir lokin og það þriðja kom ekki þar sem Þróttarar skutu í eigin mann á línu KR-inga. KR sótti mikið í leiknum og aðeins klaufaskapur kom í veg fyrir að þeir voru ekki 5-0 yfir í hálfleik. Baldur Sigurðsson kom þeim yfir með fínu marki eftir sendingu Gunnars Kristjánssonar snemma leiks. Baldur átti frábæran leik, hann var ógnandi og skoraði aftur svipað mark í seinni hálfleik. Í millitíðinni fiskaði hann víti og rautt spjald á Birki Pálsson sem var réttur dómur. Björgólfur Takefusa skoraði örugglega úr vítinu. Hann fékk fjölda færa í kvöld en voru mislagðir fætur og hann nagar sig eflaust í handarbökin fyrir að skora ekki úr opnum leik. Þróttarar minnkuðu muninn á lokamínútunum þegar Andrés Vilhjálmsson skoraði eftir sendingu frá Muamer Sadikovic sem skoraði svo sjálfur með skalla eftir horn í uppbótartíma. Þróttarar fengu eitt færi enn en skot þeirra var varið á línu, af eigin leikmanni. Grátlegt fyrir Þrótt en KR-ingar voru einfaldlega hættir. Þeir sluppu þó með skrekkinn og eru komnir í undanúrslit þriðja árið í röð. KR-Þróttur 3-2 1-0 Baldur Sigurðsson (11.) 2-0 Björgólfur Takefusa (31., vítaspyrna) 3-0 Baldur Sigurðsson (73.) 3-1 Andrés Vilhjálmsson (88.) 3-2 Muamer Sadikovic (90.) Skot (á mark): 26-9 (9-5) 
Varin skot: Lars 2 - Haraldur 6 
Horn: 10-6
 Aukaspyrnur fengnar: 16-14
 Rangstöður: 3-2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×