Körfubolti

Boston fíflaði Orlando á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stan Van Gundy, þjálfari Orlando, var niðurlútur eftir leik.
Stan Van Gundy, þjálfari Orlando, var niðurlútur eftir leik. Mynd/AP

Boston Celtics slátraði Orlando Magic á heimavelli sínum í þriðju viðureign liðanna í úrslitum Austurstrandarinnar í úrslitakeppni NBA-deildarinnar, 94-71. Staðan í rimmunni er nú 3-0 og getur Boston nú tryggt sér sæti í lokaúrslitunum með sigri í næstu viðureign.

Boston var með algera yfirburði í leiknum í gær. Liðið skoraði fyrstu sjö stig leiksins og staðan eftir átta mínútur var orðin 21-6 Boston í vil og Orlando komst aldrei nálægt því að ógna forskoti heimamanna eftir það.

Mestur varð munurinn í upphafi fjórða leikhluta, 32 stig í stöðunni 85-53.

„Það var eins og okkur hefði verið alveg sama," sagði Dwight Howard, leikmaður Orlando, eftir leikinn.

Áhugaleysi Orlando virtist aldrei meira en þegar að Rajon Rondo náði að stela boltanum í gegnum klofið á Jason Williams sem var að hlaupa aftur til að ná í boltann eftir misheppnaða sendingu.

„Þetta er bara eitt af mörgum atriðum í leiknum sem sýndi hvað var í gangi hjá okkur," sagði Stan Van Gundy, þjálfari Orlando. „Við fórum bara á hliðina hvað hugarfar varðaði og gáfum eftir á öllum öðrum sviðum í kjölfarið."

Alls skoruðu sex leikmenn Boston tíu stig eða meira í leiknum. Glen Davis var stigahæstur með sautján, Paul Pierce var með fimmtán stig og níu fráköst, Ray Allen fjórtán og Rajon Rondo ellefu og var þar að auki með tólf stoðsendingar.

Stigahæstir hjá Orlando voru Vince Carter og Jameer Nelson með fimmtán stig hvor. Howard náði sér engan veginn á strik og var með sjö stig.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×