Sport

ÍR í góðum málum eftir fyrri daginn í bikarkeppni FRÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
ÍR-ingar unnu bikarinn í fyrra.
ÍR-ingar unnu bikarinn í fyrra. Mynd/ÓskarÓ
ÍR-ingar hafa góða forustu á FH eftir fyrri daginn í 45. bikarkeppni FRÍ sem fram fer á Sauðárkróksvelli nú um helgina. ÍR vann bikarinn í fyrra í fyrsta sinn síðan 1987 eftrir að FH-ingar höfðu unnið fimmtán sinnum í röð.

ÍR hefur einnig forystu í kvennakeppninni og er í 2. sæti í karlakeppninni. FH er hinsvegar með forystu í karlakeppninni. Í samanlagðri stigakeppni er sameiginlegt lið Ármanns og Fjölnis nokkuð óvænt í 3. sæti, en liðið vermir 2. sætið eftir fyrri dag í kvennakeppninni og er í 3. sæti í karlakeppninni.

Þorsteinn Ingvarsson úr HSÞ og Helga Margrét Þorsteinsdóttir hjá sameiginlegu liði Ármanns og Fjölnis unnu bæði tvær greinar í gær.

Þorsteinn Ingvarsson HSÞ og Kristinn Torfason háðu góða keppni í langstökki, þar sem Þorsteinn bar sigur úr býtum með stökki upp á 7,28 m en Kristinn 7,18 m. Skammt á eftir var Bjarni Malmquist Árm./Fjölni með 7,04 m.

Þorsteinn sigraði einnig í 100 m hlaupi á 10,96 sek., en Óli Tómas Freysson varð 2. á 11,01 sek. Í 3. sæti varð síðan Svein Elías Elíasson á 11,17 sek. en hann keppti fyrir sitt félag að nýju eftir um tveggja ára hvíld frá keppni.

Helga Margrét Þorsteinsdóttir sem keppir fyrir sameiginlegt lið Fjölnis og Ármanns sigraði bæði í í spjótkasti og kúluvarpi en varð að gera sér annað sætið að góðu í þrístökki eftir mikla og spennandi keppni við Ásdísi Magnúsdóttur úr ÍR sem sigraði með 11,67 m. Helga Margrét varð 2. eins og áður sagði með 11,59 m Fjóla Signý Hannesdóttir var þar skammt á eftir með 11,67 m.

Keppni á seinni deginum hefst klukkan ellefu með keppni í sleggjukasti og er áætlað að keppni ljúki um kl. 14:35 en þá verða bikarmeistarar árið 2010 krýndir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×