Handbolti

Halldór Ingólfsson: Menn læra af þessu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Halldór Ingólfsson.
Halldór Ingólfsson.
„Við vorum að keppa við lið sem er mun betra en okkar lið. Við þurftum að spila yfir getu til að halda í við þá en náðum því ekki í dag," sagði Halldór Ingólfsson, þjálfari Hauka, sem steinlágu fyrir Grosswallstadt á Ásvöllum í dag.

Þetta var síðari viðureign liðanna í EHF-bikarnum en þýska liðið vann með ellefu marka mun í dag. Haukar töpuðu þó fyrri leiknum í Þýskalandi fyrir viku með aðeins tveggja marka mun. Hver var munurinn á þessum tveimur leikjum? „Í Þýskalandi náðum við að spila frábæran varnarleik og keyrðum hraðaupphlaupin grimmt á þá. Við fengum það ekki í dag og það er kannski stærsti munurinn. Á móti þá spiluðu þeir varnarleikinn aggresíft og stigu langt út á móti okkur," sagði Halldór.

„Við lentum í of mörgum tæknifeilum og komumst lítið áleiðis í byrjun leiks. Þá var um að gera að leyfa yngri leikmönnum að fá tækifærið. Menn læra af þessu og setja í reynslubankann."

Það er skammt stórra högga á milli hjá Haukum en þeir eiga grannaslag við FH næsta þriðjudag. „Það er skemmtilegast í þessu að spila alvöru leiki fyrir framan fullt hús," sagði Halldór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×