Fótbolti

Mourinho: Meistaradeildin stærri en HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Inter.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Inter. Nordic Photos / AFP

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Inter á Ítalíu, segir að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar sé mikilvægasti knattspyrnuleikur heimsins. Inter og Bayern München mætast í úrslitaleiknum í Madríd á laugardagskvöldið.

„Leikurinn er jafnvel stærri en HM þar sem liðin eru betri en landsliðin sem geta ekki keypt bestu leikmenn heims til sín," sagði hann á blaðamannafundi í gær.

Inter sló út Barcelona í undanúrslitum keppninnar og sagði Mourinho fyrri leik liðanna, sem fór fram í Mílanó, hafa verið einstakan.

„Ég hef ekki séð annan eins leik á þessu tímabili og ég hef ekki séð annað lið spila eins og við gerðum. Við sóttum stíft á Evrópumeistarana og skoruðum þrjú mörk gegn þeim," sagði hann.

„Við unnum rimmuna samanlagt í Barcelona en allir segja að Barcelona hafi unnið þann leik en að við höfum lagt rútu fyrir framan markið."

„En við vorum ekki með rútu fyrir framan markið heldur flugvél og það gerðum við af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi af því að við vorum manni færri og svo af því að unnum þá 3-1 á San Siro. Ekki af því að við vorum með rútu, flugvél eða bát fyrir framan markið heldur vegna þess að við rústuðum þeim á San Siro."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×