Lífið

Ekta íslenskt þorrablót í London

bermúda Hljómsveitin Bermúda skemmtir á þorrablótinu í London á laugardagskvöld.
bermúda Hljómsveitin Bermúda skemmtir á þorrablótinu í London á laugardagskvöld.

Þorrablót Íslendingafélagsins í London verður haldið á laugardagskvöld. Ekkert þorrablót var haldið í fyrra en nú hefur ný stjórn verið kosin í Íslendingafélaginu og áherslurnar að sama skapi breyst. „Það féll niður í fyrra en árin þar áður hafa þetta verið nokkur hundruð manna viðburðir. Það eru til sögur af því að fólk hafi verið að fljúga frá Íslandi til að koma á þorrablótið," segir Friðþjófur Þorsteinsson, formaður Íslendingafélagsins.

Mikið var um að fólk úr fjármálageiranum sótti þorrablótið fyrir bankahrunið en núna hafa tímarnir breyst.

„Við ákváðum í takt við tíðarandann að fara aftur í grunngildin. Mér skilst að þetta hafi verið orðnir síðkjóla- og árshátíðarviðburðir en núna erum við að reyna að breyta þessu í hefðbundið þorrablót með fjöldasöng og sveitaballi," segir hann. „Þetta er fyrst og fremst skemmtun fyrir samfélagið sem er til staðar hérna. Við viljum þjappa fólki saman sem er í London og okkar von í framtíðinni er að geta stækkað þetta en einbeitt okkur að því fólki sem er partur af samfélaginu."

Um 140 manns hafa boðað komu sína á þorrablótið og er fyrir löngu orðið uppselt í matinn. Eftir að fólk hefur drukkið fordrykk í boði lögfræðistofunnar Logos og gætt sér á hefðbundnum íslenskum þorramat og bláberjaskyri í eftirrétt tekur hljómsveitin Bermúda við og leikur fyrir dansi. Gunnar Reynir Þorsteinsson, trommari Bermúda, er afar spenntur fyrir ballinu, enda verður þetta í fyrsta sinn sem sveitin stígur á svið í London. „Þetta verður gríðarlegt partí," segir hann.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×