Viðskipti erlent

Ítalía er orðin Mekka fyrir bankaræningja

Yfir helmingur af öllum bankaránum í ESB löndunum eru framin á Ítalíu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ítölsku bankasamtakanna FIBA en fjallað er um skýrsluna á Bloomberg fréttaveitunni.

Á síðasta ári voru 1.744 bankarán framin á Ítalíu en þetta er sexfaldur fjöldi slikra rána í Þýskalandi og tuttugufalt fleiri bankarán en framin voru í Bretlandi í fyrra.

Samanlagt sluppu ítalskir bankaræningjar með 275 milljónir evra eða um 43 milljarða kr. úr þessum ránum.

Ástæðan fyrir því að svo margir bankar eru rændir á Ítalíu er að almenningur þar er lítt hrifinn af því að nota greiðslukort og því liggja bankar landsins yfirleitt með miklar fjárhæðir inn í reiðufé. Samhliða því er vernd lögreglunnar í lágmarki í þeim hverfum sem bankarnir starfa. Þetta gerir þá að skotmarki bankaræningja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×