Lífið

Mið-Ísland gerir sjónvarpsþætti

Ari Eldjárn, Jóhann Alfreð, Bergur Ebbi og Dóri DNA mynda grínhópinn Mið-Ísland. Nú hefur leikstjórinn Ragnar Hansson gengið í lið með þeim og leikstýrir væntanlegum gamanþáttum.fréttablaðið/stefán
Ari Eldjárn, Jóhann Alfreð, Bergur Ebbi og Dóri DNA mynda grínhópinn Mið-Ísland. Nú hefur leikstjórinn Ragnar Hansson gengið í lið með þeim og leikstýrir væntanlegum gamanþáttum.fréttablaðið/stefán
„Þátturinn á að vera ógeðslega skemmtilegur og eins fjölbreyttur og hægt er,“ segir uppistandarinn Ari Eldjárn.

Ari og félagar hans í grínhópnum Mið-Íslandi, þeir Bergur Ebbi, Jóhann Alfreð og Dóri DNA, vinna nú ásamt Ragnari Hanssyni að nýrri gamanþáttaröð. Ari heldur utan um handritsgerðina sem allir í hópnum taka þátt í ásamt Ragnari sem mun leikstýra. Mystery Ísland framleiðir þættina en þeir verða átta talsins og munu bera nafn hópsins. Upptökur hefjast næsta sumar og munu fjórmenningarnir fara með aðalhlutverkin. Þættirnir verða sýndir á Stöð 2 og stefnt er að því að sýningar hefjist seint á næsta ári.

Spurður hvort pláss sé á markaðnum fyrir nýtt grín segist Ari ekki þekkja hversu mettaður grínmarkaðurinn sé. „En ætli við teljum okkur ekki trú um að við séum að gera eitthvað sem hefur ekki verið gert áður og því sé gapandi svarthol á markaðnum,“ segir hann í laufléttum dúr, en bætir öllu alvarlegri við: „Ég vil ekki hafa nein gífuryrði um þáttinn því þetta er svo nýhafið hjá okkur en svona verkefni hefur verið draumur hjá okkur lengi þannig metnaðurinn er aldeilis til staðar.“

Ásamt því að vera einn vinsælasti uppistandari landsins hefur Ari fengist við handritaskrif síðustu misseri. Hann var í hópnum sem skrifaði þættina Hlemmavídeó og hefur þrisvar tekið þátt í að skrifa áramótaskaupið. „Fyrir mér er þetta fyrst og fremst handritsverkefni og áskorunin er að skrifa eitthvað sem er bæði spennandi og frumlegt.“ segir hann.

Leikstjórinn Ragnar Hansson hefur talsverða reynslu af framleiðslu gamanefnis. Hann leikstýrði Sigtinu sem sýnt var á Skjá einum og nú síðast þáttaröðinni Mér er gamanmál sem sýnd var á Stöð 2. Þættirnir fjölluðu um afdrif Frímanns Gunnarssonar sem er leikinn af bróður Ragnars, Gunnari Hanssyni en ásamt honum hefur Ragnar unnið með grínistum á borð við Frank Hvam, Matt Berry og Jóni Gnarr.

„Við ætlum að gera frábæran gamanþátt – vonandi tímalausan, þar sem sótt verður í eigin húmor og þaulreyndan húmor,“ svarar Ragnar spurður á hverju áhorfendur eigi von. „Mér líst vel á þáttinn því þetta er í fyrsta skipti sem ég leikstýri hópi þar sem allir eru yngri en ég. Ég held ég sé sá eini sem er vitlausu megin við þrítugt. Ég miðla mikilli reynslu til þeirra – ekki bara um þáttagerð heldur mun ég kenna þeim allt um býflugurnar og blómin. Ganga þeim í föðurstað.“atlifannar@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.