Fótbolti

Lyn gjaldþrota - Arnar Darri til Sönderjyske

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Darri Pétursson.
Arnar Darri Pétursson.

Norska knattspyrnuliðið Lyn var í gær tekið til gjaldþrotaskipta og hefur markvörðurinn Arnar Darri Pétursson þegar fundið sér nýtt lið.

Lyn féll úr norsku úrvalsdeildinni síðastliðið vor en félagið hefur átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum undanfarin ár. Skuldastaða liðsins var orðin það slæm að félagið var lýst gjaldþrota í gær.

Arnar Darri Pétursson hefur verið aðalamarkvörður liðsins á tímabilinu og alls fimmtán leiki að baki, þar af fimm í efstu deild í Noregi. Hann er nítján ára gamall og gekk í raðir Lyn árið 2008. Hann hefur leikið ellefu sinnum með yngri landsliðum Íslands.

Þar sem Lyn var lýst gjaldþrota í gær var Arnar Darri laus allra mála og gat því samið við nýtt félag strax í dag. Hann hefur æft með danska úrvalsdeildarfélaginu SönderjyskE síðastliðnar tvær vikur og hefur nú skrifað undir tveggja ára samning við félagið.

„Arnar er hæfileikaríkur markvörður og væntum við mikils af honum í framtíðinni," er haft eftir Klaus Rasmussen, einn forráðamanna SönderjyskE, á heimasíðu félagsins. „Við höfum góða greinslu af því að vera með íslenska leikmenn í okkar liði og hann og Nathan Coe munu mynda sterkt markvarðapar hjá liðinu."

Landsliðsmaðurinn Ólafur Ingi Skúlason er einnig á mála hjá SönderjyskE en í síðasta mánuði var Sölvi Geir Ottesen seldur þaðan til FC Kaupmannahafnar.

Með gjaldþrotinu var Lyn dæmt niður í 8. deild í Noregi en liðið var í neðsta sæti 1. deildarinnar með átta stig eftir sextán leiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×