Sport

Murray og Nadal mætast í undanúrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andy Murray var í eldlínunni í gær.
Andy Murray var í eldlínunni í gær. Nordic Photos / Getty Images
Bretinn Andy Murray fær það erfiða verkefni að mæta Rafael Nadal í undanúrslitum á Wimbledon-mótinu í tennis á morgun.

Murray hafði betur gegn Frakkanum Jo-Wilfried Tsonga í fjórðungsúrslitum í gær. Tsonga vann fyrsta settið, 7-6, en Murray þau þrjú næstu, 7-5, 6-2 og 6-2.

Nadal lenti sömuleiðis í vandræðum í sinni viðureign í gær og tapaði fyrsta settinu fyrir Svíanum Robin Söderling, 6-3. Nadal var hins vegar fljótur að jafna sig og vann næstu þrjár, 6-3, 7-6 og 6-1.

Nadal og Söderling mættust einmitt í úrslitum opna franska meistaramótsins í síðasta mánuði og þá hafði Nadal einnig betur.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni á morgun mætast þeir Tomas Berdych frá Tékklandi og Novak Djokovic frá Serbíu.

Í dag fara fram undanúrslitin í einliðaleik kvenna. Serena Williams, efsta konan á heimslistanum, mætir Petra Kvitova frá Tékklandi annars vegar og hins vegar eigast við Vera Zvonareva frá Rússlandi og Tsvetana Pironkova frá Búlgaríu.

Pironkova hefur slegið í gegn á mótinu í ár en hún gerði sér lítið fyrir og vann Venus Williams í fjórðungsúrslitum örugglega, 6-2 og 6-3. Pironkova er í 81. sæti heimslista en Venus í öðru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×