Innlent

Búnaður sem nýtist öllum æskilegastur

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra

Dómsmálaráðherra segir að huga þurfi að nauðsynlegum aðgerðum til að bæta öryggi lögreglumanna:

„Ég mun óska eftir því við ríkislögreglustjóra að embættið taki sérstaklega til umfjöllunar öryggi lögreglumanna og að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til úrbóta eða tillögum skilað til ráðuneytisins."

Þetta segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra vegna umfjöllunar Fréttablaðsins fyrr í vikunni um tíðara og harðara ofbeldi borgara gegn lögreglumönnum við skyldustörf, oft samfara varanlegum skaða hjá þeim síðarnefndu.

„Það álitaefni hefur verið til umfjöllunar um árabil hvort lögreglumenn og fangaverðir taki í notkun rafstuðtæki, öðru nafni rafbyssur," segir dómsmálaráðherra. „Ríkislögreglustjóri hefur komist að þeirri niðurstöðu að rafbyssa hafi umtalsverða kosti sem valdbeitingartæki með takmarkaðri áhættu. Þó hefur hann ekki talið ástæðu til, að svo stöddu, að búa öll lögreglulið rafbyssum. Til skoðunar kæmi að heimila sérsveitinni notkun á þeim til reynslu sem valkost í stað skotvopna."

Ráðherra segir að í ljósi niður­stöðu ríkislögreglustjóra hafi verið litið svo á, við núverandi stöðu í ríkisfjármálum, að í öllu falli sé skynsamlegra að nota þá takmörkuðu fjármuni, sem lögregla hefur til búnaðarkaupa, til að kaupa búnað sem nýtist sem flestum lögreglumönnum, í stað þess að lagt verði út í kostnað við að vopna sérsveitina með rafbyssum.

„Lögreglan hefur þurft að þola niðurskurð fjárheimilda og þess sér stað í starfseminni. Lögreglumenn eru uggandi um öryggi sitt og huga þarf að nauðsynlegum aðgerðum til að búa betur að því." - jss










Fleiri fréttir

Sjá meira


×