Innlent

Létu rigninguna ekki trufla sig

Frá Hljómskálagarðinum.
Frá Hljómskálagarðinum.

Talið er að hátt í tíu þúsund manns hafi fylgst með tónleikunum Iceland Inspires þegar best lét í Hljómskálagarðinum í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Rigning setti strik í reikninginn fyrsta klukkutímann og voru margir tónleikagesta undir það búnir. Þegar líða tók á kvöldið stytti upp og bættist þá í hóp tónleikagesta.

Tónleikarnir voru sendir beint út á vefsíðu Inspired by Iceland og er talið að í kringum tuttugu þúsund manns hafi fylgst með þeim á Netinu. „Þetta gæti ekki verið betra," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, sem á sæti í verkefnisstjórn. Hún bætir við að nákvæmar tölur muni liggja fyrir í dag. „Þær tölur sem höfum séð benda til að áttatíu til níutíu prósent þeirra sem sjá tónleikana á Netinu séu stödd í útlöndum," segir Inga.

Á meðal þeirra sem fram komu á tónleikunum voru Amiina, Steindór Andersen, Damien Rice, Lay Low og Dikta.

Inspired by Iceland er samstarfsverkefni Iðnaðarráðuneytis, nýstofnaðrar Íslandsstofu, Ferðamálastofu og fagfélaga innan Samtaka ferðaþjónustunnar. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×