Tónlist

Trommari Seabear varð eftir heima

Hljómsveitin Seabear er á tónleikaferðalagi um Evrópu um þessar mundir. Kjartan er lengst til hægri á myndinni.
fréttablaðið/stefán
Hljómsveitin Seabear er á tónleikaferðalagi um Evrópu um þessar mundir. Kjartan er lengst til hægri á myndinni. fréttablaðið/stefán

Hljómsveitin Seabear er nýlögð af stað í stóra tónleikaferð um Evrópu til að kynna plötu sína We Built A Fire. Trommuleikari sveitarinnar, Kjartan Bragi Bjarnason, er þó ekki með í för því hann var að eignast sitt fyrsta barn.

„Ég er nýbúinn að eignast barn þannig að ég fer ekki langt, ekki alveg á næstunni," segir Kjartan Bragi, sem eignaðist son fyrir mánuði. „Það var bara fenginn annar drengur til að hlaupa í skarðið," segir hann og á þar við Arnar Inga Viðarsson, trommara Dynamo Fog og Retron. „Hann rúllar þessu upp þannig að ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu."

Kjartan, sem er líka meðlimur Kimono, hefur áður misst af tónleikaferðum erlendis með Seabear. Síðast var það í fyrra þegar sveitin hitaði upp fyrir múm á fimm vikna tónleikaferðalagi. Þá var það vinnan sem hélt honum heima við en hann er verslunarstjóri hjá Steinari Waage í Smáralind og hefur í nógu að snúast í því starfi.

Seabear hefur verið á tónleikaferð síðan í febrúar. Fyrst fór sveitin til Þýskalands og síðan til Bandaríkjanna í tæpar þrjár vikur. Tónleikaferðin núna stendur einnig yfir í þrjár vikur þar sem ferðast verður meðal annars til Svíþjóðar, Þýskalands, Bretlands og Hollands. „Það kemur túr eftir þennan túr. Ég sé ekkert eftir því að vera ekki að fara í þennan túr. Maður er alveg að fatta það núna," segir Kjartan, sem fylgist engu að síður með hvernig gengur með aðstoð Sigurðar Magnúsar Finnssonar, slagverksleikara í Singapore Sling sem skipuleggur tónleikaferðir Seabear.

Til stendur að hljómsveitin fari fleiri tónleikaferðir í haust um Evrópu og Bandaríkin og stefnir Kjartan á að vera með í þeim. „Ég reikna með því en ég á eftir að tala við vinnuveitendurna," segir hann og kímir.

Útgáfutónleikar Seabear vegna nýju plötunnar verða síðan haldnir 9. júlí í Iðnó og geta íslenskir aðdáendur sveitarinnar því tekið daginn frá.

freyr@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×