Innlent

Brýnt að skerpa á ákvæði um þjóðaratkvæði

„Við verðum að fara að setja okkur skýrar reglur um grundvallaratriði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur,“ segir forseti lagadeildar Háskóla Íslands.
„Við verðum að fara að setja okkur skýrar reglur um grundvallaratriði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur,“ segir forseti lagadeildar Háskóla Íslands. Mynd/GVA
Björg Thorarensen, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, segir brýnt að skerpa á ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur. Margir þættir séu afar óljósir. Aldrei hafi reynt á 26. grein stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um þjóðaratkvæði. Ekki liggi ljóst fyrir hverjir geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum né hvort niðurstaða þeirra sé ráðgefandi eða bindandi.

„Við verðum að fara að setja okkur skýrar reglur um grundvallaratriði varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Hver geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort það eru þingmenn eða þjóðin og hvort þær eigi að vera bindandi eða ráðgefandi," sagði Björg í seinnifréttum Ríkissjónvarpsins.

„Núna liggur þó fyrir frumvarp til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna en það er í sjálfu sér ekki efnisreglur um það hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram. Það er þó spor í rétta átt að eiga til einhvern farveg ef að þau lög verða samþykkt þannig að það sé vitað hvernig eigi að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu," sagði Björg.


Tengdar fréttir

Ráðgjafi forsetans vill að hann staðfesti lögin

Sigurður G. Guðjónsson, einn helsti ráðgjafi Ólafs Ragnars Grímssonar í gegnum tíðina, vill að hann staðfesti Icesave lögin sem Alþingi samþykkti 30. desember. Sigurður segist ekki hafa rætt um málið við Ólaf.

Forseti hefur rætt við forystumenn stjórnarflokkanna

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands fundaði í gær með Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra í sitt hvoru lagi vegna Icesave laganna.

Erlendir fréttamenn á leiðinni vegna Icesave

Fjármálaráðherra Bretlands segir afar mikilvægt að forseti Íslands staðfesti Icesave lögin, þótt hann geri sér grein fyrir að málið sé Íslendingum erfitt. Ekki liggur fyrir hvenær forsetinn ákveður sig, en alveg eins má búast við að það gerist í dag. Áhugi erlendis er mikill á málinu en fréttastofu er kunnugt um að erlendir fréttamenn séu á leiðinni til landsins til þess að fjalla um málið.

Forsetinn hefur ákveðið sig

Forseti Íslands hefur ákveðið hvort hann staðfestir eða synjar Icesave lögunum staðfestingar og greinir frá þeirri ákvörðun í fyrramálið. Töluverðar líkur eru á að ríkisstjórnin segi af sér og boðað verði til kosninga, synji forsetinn því að staðfesta lögin.

Synjun gæti valdið pólitískri upplausn

Taki forseti Íslands sér lengri umþóttunartíma en til dagsins í dag vegna Icesave-laganna kann hann að mati Eiríks Tómassonar lagaprófessors að vera brotlegur við stjórnarskrá.

Ólafur boðar til blaðamannafundar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur boðað til blaðamannafundar á Bessastöðum á morgun klukkan 11. Óvissa hefur ríkt um hvað hvernig forsetinn mun bregðast við í Icesave málinu. Fjórir sólarhringar eru liðnir síðan að hann fékk lögin í hendurnar. Þá sagðist Ólafur ætla að taka sér frest til þess að fara yfir málið og í fyrradag tók hann á móti undirskriftum Indefence hópsins þar sem skorað er á hann að synja lögunum staðfestingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×