Innlent

Davíð Oddsson klipptur út úr Áramótaskaupinu

Valur Grettisson skrifar
Davíð Oddsson. Mynd úr safni.
Davíð Oddsson. Mynd úr safni.

„Þetta var bara eitt af því sem fór undir hnífinn," segir Þórhallur Gunnarsson dagskrástjóri Ríkisútvarpsins, en atriði þar sem Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins leikur grínistan Örn Árnason, var klippt út úr Áramótaskaupinu.

Þórhallur vill sem minnst um atriðið segja annað en að Davíð Oddsson átti að leika grínistann Örn Árnason sem hefur hermt eftir fyrrum forsætisráðherranum í fjölda ára. Atriðið átti að verða hluti af Áramótaskaupinu sem þótti bæði óvægið og vel heppnað í ár að mati þjóðarinnar.

Þórhallur segir leikstjórann hafa haft margar klukkustundir af efni undir höndum og því viðbúið að eitthvað færi undir hnífinn og yrði klippt í burtu enda skaupið aðeins rúm klukkustund að lengd.

Túlkun Arnar á Davíð Oddssyni er fyrir löngu orðin landsfræg og þykir frábær að flestra mati. Þegar Þórhallur er spurður hvernig Davíð hafi hinsvegar túlkað Örn svarar hann: „Það má segja að þetta hafi bara verið Davíð að leika Davíð."

Aðspurður segir Þórhallur ástæðuna fyrir því að atriðið hafi verið klippt út hafi ekki verið sú að Davíð eða einhver annar hafi þrýst á leikstjóra skaupsins að klippa atriðið í burtu.

„Atriðið gekk bara ekki upp," segir Þórhallur og bendir á að sumt sé einfaldlega fyndnara í orði en á borði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×