Innlent

Falskur sáttatónn stjórnarandstöðunnar

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar.
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar.
„Vill fólk fá þetta lið við stjórnvölinn – aftur – sama liðið og ber ábyrgð á Icesave-ósómanum? Sama liðið og klessukeyrði samfélagið og skuldsettu íslenskan almenning upp í rjáfur?“ spyr Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar, í pistli á heimasíðu sinni í kvöld. Hann segir að sáttatónn stjórnarandstöðunnar í Icesave málinu sé falskur.

Björn segir að sæmileg samstaða hafi náðst um málið á Alþingi í sumar. Fjárlaganefnd hefði afgreitt málið svo til einhuga úr nefndinni. „En þegar á reyndi hljóp stjórnarandstaðan frá málinu og neitaði að styðja það allt til enda. Þannig varð stjórnarandstaðan til þess að kljúfa þing og þjóð upp í tvær fylkingar í stað þess að nýta tækifærið til að sameinast. Það hefði orðið annar bragur á málinu ef þingheimur allur hefði stutt málið eins og það lá þá fyrir," segir þingmaðurinn.

Björn segir að það hafi ekki verið nema von að stjórnarandstöðunni hafi ekki verið boðið að koma að borðinu þegar viðræður við Breta og Hollendinga hófust að nýju í haust. Enda hafi viðbrögð forystumanna stjórnarandstöðunnar við niðurstöðum þeirrar viðræðna verið á einn veg. Þeir hafi sagt að þeir myndu ekki koma að málinu eða styðja það með nokkrum hætti.

„Ábyrgð stjórnarandstöðunnar á þeirri óeiningu sem nú ríkir í þjóðfélaginu vegna þessa máls er því óumdeild og hafin yfir allan efa. Sáttatónn þeirra var falskur frá fyrsta degi. Þeirra er ábyrgðin og þannig hafa þau skrifað sína pólitísku sögu, sem óábyrg stjórnmálaöfl sem brugðust þjóð sinni á einum erfiðustu tímum í sögu lýðveldisins,“ segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×