Viðskipti erlent

Heimsmarkaðsverð á olíu yfir 80 dollara á tunnuna

Heimsmarkaðsverð á olíu fór yfir 80 dollara á tunnuna á markaðinum í New York í dag sem er hækkun um 2% frá því fyrir helgina. Brent-olían í London hefur einnig hækkað um 2% í morgun og stendur í 79,55 dollurum. Olíuverðið hefur ekki verið hærra frá því í nóvember s.l.

Í frétt um málið á börsen.dk segir að vetrarhörkur víða á Vesturlöndum hafi valdið því að olíubirgðir hafa lækkað. Þetta ásamt stjórnmálaóróleika í Íran valda hækkunum á olíu nú að mati sérfræðinga.

„Stærsti áhrifavaldurinn er án efa hið kalda veðurfar," segir Christopher Bellew greinandi hjá Bache Commodities í London. „Óróleikinn í stjórnmálum í Íran virðist ætla að blossa upp aftur og það hefur eðlilega áhrif á olíuverðið".

Af annarri hrávöru má nefna að álverðið er á svipuðum slóðum í dag og fyrir áramót eða í 2.242 dollurum á tonnið á markaðinum í London. Hinsvegar heldur verð á kopar áfram að hækka í kjölfar yfirstandandi verkfalls í stærstu koparnámu Kína, Chuqucamata námunni.

Gull er aftur að hækka í kjölfar þess að dollarinn helst áfram veikur. Stendur gullverðið nú í 1118,5 dollurum fyrir únsuna sem er 2% hækkun frá því fyrir áramótin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×