Handbolti

Ólafur: Draumur rættist í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur í leik með félagsliði sínu, FH.
Ólafur í leik með félagsliði sínu, FH. Mynd/Valli
Ólafur Guðmundsson fékk sannkallaða eldskírn með íslenska landsliðinu þegar liðið vann tíu marka sigur á Portúgal fyrir framan fulla Laugardalshöll.

Ólafur fékk tækifæri á síðustu mínútum leiksins og nýtti það vel. Hann skoraði til að mynda eitt mark.

„Það var æðislegt að fá að spila í kvöld og það fyrir fullri Höll. Um þetta hefur maður dreymt síðan maður var smástrákur og sá draumur var að rætast í kvöld. Þetta var hrikalega gaman."

Ólafur þarf nú að bíða til morguns þar til að Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari tilkynnir hvaða leikmenn munu fara á EM í Austurríki.

„Ég verð bara að vona það besta. Ég hef verið duglegur á æfingum og staðið mig vel. Ég nýtti svo þær mínútur sem ég fékk í kvöld ágætlega. Ég gerði mitt besta og þetta er bara undir Gumma komið. Ég vona þó það besta og hef ekki ástæðu til annars en að vera bjartsýnn."

Hann sagðist vera ánægður með leikinn í heild sinni í kvöld. „Það er þó hellingur sem við getum bætt. Við litum þó ágætlega út og fengum heilmikið úr leiknum. En þetta er auðvitað æfingaleikur og því svo sem lítið að marka hann. Það sem mestu skiptir er hvernig við spilum eftir að við komum til Austurríkis."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×