Lífið

Útvarpsstöðin Nálin í loftið

Einar Karl Gunnarsson (til vinstri) ásamt hluta af dagskrárgerðarmönnum Nálarinnar, þeim Sigurði Páli, Jóni Rafni, Ragga Palla og Svavari Skúla.
fréttablaðið/anton
Einar Karl Gunnarsson (til vinstri) ásamt hluta af dagskrárgerðarmönnum Nálarinnar, þeim Sigurði Páli, Jóni Rafni, Ragga Palla og Svavari Skúla. fréttablaðið/anton
Útvarpsstöðin Nálin fer í loftið á tíðninni 101,5 á næstu dögum. Stöðin er í eigu Útvarps Sögu og verður megináherslan lögð á klassískt rokk.

„Þetta verða lög sem eru kannski ekki mikið í daglegri spilun annars staðar heldur reynum við frekar að velja gæðin umfram þessa hefðbundnu smelli,“ segir Einar Karl Gunnarsson, dagskrárstjóri Nálarinnar og sonur Arnþrúðar Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu. Spurður segir hann að skortur hafi verið á útvarpsstöð sem þessari á öldum ljósvakans. „Eins og þetta hefur verið er alltaf sama tónlistin á öllum stöðvunum, kannski með smá breytingum hér og þar. Þegar þú ferð síðan frá eldri stöðvum yfir í unglingastöðvar eru þær bara með teknó.“

Á meðal dagskrárgerðarmanna á Nálinni verða Raggi Palli, Gunnar Ásgeirsson og Gunnar Gunnarsson. Aðrir sem munu að öllum líkindum starfa þar eru tónlistarbloggarinn Jens Guð og Karl Sigurðsson, fyrrverandi útvarpsmaður á Rás 2. Auk klassíska rokksins verða ýmiss konar sérþættir í boði, þar á meðal um djass, blús og kvikmyndir.

Einar Karl viðurkennir að stofnun Nálarinnar sé töluverð áhætta, sérstaklega á þessum síðustu og verstu tímum. „Öll þessi tæki og tól eru auðvitað frekar kostnaðarsöm en maður vonar bara að þetta gangi vel.“ - fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.