Fótbolti

Garðar skrifar væntanlega undir hjá Unterhaching á morgun

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson.
Garðar Gunnlaugsson.
Garðar Gunnlaugsson mun að öllum líkindum skrifa undir tveggja ára samning við þýska félagið Unterhaching í fyrramálið. Unterhaching spilar í þriðju efstu deild.

Garðar hefur staðið sig vel á reynslu hjá félaginu og skoraði meðal annars þrennu í æfingaleik með félaginu sem endaði 16-1.

Garðari var boðinn tveggja ára samningur en sendi gagntilboð til félagsins sem hefur mikinn áhuga á að semja við hann.

"Hann vill ganga frá þessu og skrifa undir hjá félaginu," staðfesti Hafþór Hafliðason, umboðsmaður Garðars, í samtali við Vísi.

"Honum lýst vel á félagið og þjálfarann," bætti hann við en þjálfarinn er goðsögnin Klaus Augentaler sem spila yfir 400 leiki fyrir Bayern Munchen.

Fleiri félög höfðu áhuga á Garðari sem spilaði með austurríska félaginu LASK frá Linz í vor. Hann hafnaði tveggja ára samningi við félagið.

"Það var áhugi frá Svíþjóð en vandamálið þar eins og víðar er að launin eru ekki góð. Það er meiri peningur austar í Evrópu en það er kannski ekki spennandi knattspyrnulega séð," sagði Hafþór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×