Viðskipti innlent

Setur að manni óhug ef fyrirtæki flýja land

Þórður Friðjónsson, hér á hægri hönd Halldórs Friðriks Þorsteinssonar hjá HF Verðbréfum, segir lágt gengi krónunnar til langframa viðsjárverða þróun. markaðurinn/stefán
Þórður Friðjónsson, hér á hægri hönd Halldórs Friðriks Þorsteinssonar hjá HF Verðbréfum, segir lágt gengi krónunnar til langframa viðsjárverða þróun. markaðurinn/stefán
„Ég tel hættuna á fyrirtækjaflótta því miður raunverulega,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar og fyrrverandi forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Hann bendir á að fyrir hrun hafi umhverfi fyrirtækja hér um margt verið hagfellt og fyrir vikið eftirsóknarvert að starfrækja fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri.

Þórður nefnir að skattalegur aðbúnaður hafi hér verið aðlaðandi í samanburði við flest önnur lönd og hagkerfið almennt talið vel skipulagt og traust. Nú séu aðrir tímar.

„Það er erfiðara að finna sannfærandi rök fyrir því að staðsetja áfram fyrirtæki á Íslandi sem eðli máls vegna gætu verið hvar sem er í heiminum. Össur og Marel eru góð dæmi en einnig mætti nefna óskráð fyrirtæki, svo sem Actavis og CCP. Það setur að manni óhug að hugsa til þess ef eitt eða fleiri af slíkum fyrirtækjum hyrfu af landi brott,“ segir hann.

Þórður bendir á að þótt hrunið hafi vissulega dregið úr því hversu eftirsóknarvert það sé að eiga og reka hér fyrirtæki hafi gríðarleg lækkun krónunnar áhrif. Veik staða hennar nú geti styrkt samkeppnisstöðu landsins til skamms tíma.

Þróunin er varhugaverð, að mati Þórðar: „Þetta viljum við auðvitað ekki að verði varanlegt ástand. Lágt gengi þýðir léleg lífskjör. En gengi krónunnar verður líklega lágt um nokkurn tíma og á meðan njóta útflutningsfyrirtækin óvenjulega hagstæðrar samkeppnisstöðu gagnvart öðrum löndum,“ segir hann og leggur áherslu á að þjóðin nái sér sem fyrst á strik eftir hrunið.

„Við þurfum að geta sannfært okkur sjálf og umhverfið um að við séum á réttri leið. Og rétta leiðin er stysta leiðin að öflugum markaðsbúskap með áþekku sniði og var hér fyrir hrun, að sjálfsögðu án gallanna sem leiddu til þess. Þegar við höfum valið skynsamlega leið inn í framtíðina þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af fyrirtækjaflótta,“ segir Þórður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×