Enski boltinn

West Ham sló Manchester United út úr enska deildbikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathan Spector skoraði tvö í kvöld.
Jonathan Spector skoraði tvö í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Botnlið West Ham í ensku úrvalsdeildinni tryggði sér sæti í undanúrslitum enska deildarbikarsins eftir 4-0 stórsigur á toppliði Manchester United á Upton Park í kvöld. Jonathan Spector skoraði tvö fyrstu mörkin á móti sínum gömlu félögum og Carlton Cole innsiglaði sigurinn með tveimur mörkum í seinni hálfleik. Arsenal komst líka í undanúrslitin eftir 2-0 sigur á Wigan á heimavelli.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gerði tíu breytingar frá því í 7-1 sigri á Blackburn í ensku úrvalsdeildinni um helgina en aðeins Anderson hélt sæti sínu í liðinu. Ryan Giggs var þó í byrjunarliðinu en hann er að koma til baka eftir meiðsli. Þetta kom í bakið á United sem mátti sætta sig við stóran skell á móti neðsta liðinu í deildinni. Manchester United var ekki búið að tapa á tímabilinu og hafði unnið þessa keppni tvö undanfarin tímabil.

Mynd/Nordic Photos/Getty
Jonathan Spector kom West Ham í 1-0 með skallamarki eftir fyrirgjöf frá Victor Obinna. Aðeins sex mínútum hafði Obinna skorað sjálfur en markið var dæmt af vegna rangstöðu við litlar vinsældir frá Avram Grant, stjóra West Ham. Það kom þó ekki að sök því West Ham liðið var í miklu stuði í snjókomunni á Upton Park.

Jonathan Spector bætti við öðru marki á 37. mínútu þegar boltinn féll fyrir hann í teignum. Spector nýtti sér það og skoraði en hann hafði komið boltanum inn í teig eftir mikinn sprett.

Carlton Cole skoraði þriðja markið á 56. mínútu eftir sendingu frá Nígeríumanninum Victor Obinna sem var allt í öllu í mörkum West Ham í kvöld. Obinna lagði líka upp fjórða markið sem Cole skoraði á 67. mínútu.

Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsenal vann 2-0 sigur á Wigan á Emirates-vellinum. Fyrra mark Arsenal var sjálfsmark Antolin Alcaraz, leikmanns Wigan, eftir hornspyrnu frá Theo Walcott á 42. mínútu en Nicklas Bendtner innsiglaði síðan sigurinn á 65. mínútu með marki af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Carlos Vela.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×