Sport

Vick langar að eignast hund

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Michael Vick segist elska dýr.
Michael Vick segist elska dýr.

Þegar Michael Vick, leikstjórnandi Philadelphia Eagles, var sendur í fangelsi fyrir ólöglegt hundaat á sínum tíma var honum einnig meinað að eignast aftur hund á lífsleiðinni.

Vick hefur tekist að snúa almenningsálitinu sér í hag á nýjan leik í heimalandinu og er meðal annars efstur í kosningu á leikmönnum í stjörnulið NFL-deildarinnar.

Vick hefur nú greint frá því að hann sakni þess að eiga ekki hund og væri meira en til í að fá hund á heimilið.

"Það væri frábært að eignast hund síðar á lífsleiðinni. Það væri stórt framfaraskref í meðferðinni minni," sagði Vick og bætti við að dætur hans væru afar sorgmæddar yfir því að eiga ekki hund.

Vick stóð ekki bara fyrir ólöglegu hundaati á sínum tíma heldur voru hundarnir sem stóðu sig ekki pyntaðir á grimmilegan hátt. Þeim var meðal annars gefið raflost og drekkt.

NFL-stjörnunni er mikið í mun að sýna fram á að hann hafi skilið gamla lífsstílinn eftir í fangelsinu.

"Ef ég fæ mér gæludýr get ég sýnt heiminum hvað mér þykir í raun og vera vænt um dýr. Það væri algjörlega frábært ef ég fengi annað tækifæri."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×