Enski boltinn

Owen Coyle: Skilur vel sárindi og vonbrigði stuðningsmanna Burnley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Owen Coyle er nýr stjóri Bolton.
Owen Coyle er nýr stjóri Bolton. Mynd/AFP

Owen Coyle viðurkenndi á sínum fyrsta blaðamannafundi sem stjóri Bolton að það hafi verið erfið og tilfinningarík stund þegar hann yfirgaf Burnley. Coyle segir að skortur á fjármagni til leikmannakaupa hafi skipt máli í ákvörðun sinni.

„Það fylgja þessu fullt af tilfinningum en það bíður mjög spennandi verkefni hér hjá Bolton," sagði Owen Coyle sem hrósaði mikið uppbyggingunni hjá Bolton.

„Það er tvennt sem gerist fyrir fótboltastjóra. Þeir standa sig vel og halda áfram annað eða þeir standa sig illa og er ýtt áfram," sagði Owen Coyle en hann tók við Burnley-liðinu í neðri hluta b-deildarinnar og kom liðinu í hóp þeirra bestu.

"Ég skil vel sárindi og vonbrigði stuðningsmannanna. Það er auðskiljanlegt enda væri annars eins og þessi tvö ár hefðu verið þurrkuð út. Ég tók við liðinu í neðri hluta b-deildarinnar og kom liðinu upp. Þess vegna er ég kannski hér," sagði Coyle.

„Þetta hafa verið tvö frábær ár og er orðinn mjög tengdur þessu félagi. Ég reyndi samt að halda tilfinningunum utan við ákvörðun mína og taka bestu fótboltalegu ákvörðunina sem ég gat," sagði Owen Coyle sem vildi koma einu á hreint.

„Ef að þetta hefði verið spurning um peninga fyrir mig þá hefði ég tekið tilboðinu frá Celtic síðasta sumar," sagði Owen Coyle.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×