Lífið

Vinir Endless Dark í vanda

Matthew Leone (til vinstri) og tvíburabróðir hans Nathan á góðri stundu. Matthew er á batavegi eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás.nordicphotos/getty
Matthew Leone (til vinstri) og tvíburabróðir hans Nathan á góðri stundu. Matthew er á batavegi eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás.nordicphotos/getty
Matthew Leone, bassaleikari bandarísku rokksveitarinnar Madina Lake, er á batavegi eftir að hafa orðið fyrir alvarlegri líkamsárás á dögunum. Leone sá náunga nokkurn lúskra á eiginkonu sinni skammt frá íbúð sinni í Chicago og ákvað að skipta sér af. Maðurinn kunni ekki að meta það og fór illa með Leone og skildi hann eftir margbrotinn og meðvitundarlausan.

Madina Lake er á tónleikaferðalagi í Bretlandi um þessar mundir án Leone og eins og kom fram í Fréttablaðinu spila vestfirsku rokkararnir í Endless Dark með sveitinni á nokkrum tónleikum þar í landi á næstunni.

Samkvæmt tvíburabróður Leone og söngvara Madina Lake, Nathan, er bassaleikarinn allur að braggast en læknar þurftu að fjarlægja hluta af höfuðkúpu hans til að losa um þrýsting á heilann, sem var stokkbólginn. „Fyrstu dagana þekkti hann mig ekki og það kom ekkert af viti upp úr honum. Núna er hann byrjaður að tala og hreyfa sig, sem er yndislegt. Þannig að horfurnar eru betri með hverri klukkustundinni sem líður,“ sagði hann.

Madina Lake var stofnuð í Chicago árið 2005 af Leone-tvíburunum og tveimur öðrum strákum. Matthew og Nathan vöktu fyrst athygli fyrir þátttöku sína í sjónvarpsþáttunum Fear Factor. Þeir notuðu peninginn sem þeir þénuðu þar í prufuupptökur fyrir nýju hljómsveitina sína. Núna hefur Madina Lake gefið út tvær hljóðversplötur og nýtur töluverðrar hylli í Bretlandi. Fyrir þremur árum var hún kjörin besti erlendi nýliðinn á Kerrang!-tónlistarverðlaunahátíðinni þar í landi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.