Lífið

Bílabingó með í ferðalagið

Setur nýtt spil á markaðinn með það markmið að fá ferðalanga til að fylgjast meir með umhverfinu á ferð um landið.Fréttablaðið/Arnþór
Setur nýtt spil á markaðinn með það markmið að fá ferðalanga til að fylgjast meir með umhverfinu á ferð um landið.Fréttablaðið/Arnþór
Guðrún Gyða hannaði sérstakt Bílabingó eftir að hafa átt sams konar spil fyrir 20 árum. Hún segist vonast til þess að spilið fái nútímabörn til að fylgjast meir með út um gluggann á ferð sinni um landið.

„Ég átti svona svipað spil fyrir 20 árum sem ég hafði fengið í Þýskalandi. Á því voru reyndar bílategundir en þetta sló þvílíkt í gegn hjá okkur í aftursætinu. Við notuðum þetta alltaf í bílnum, hvort sem við vorum innanbæjar eða utanbæjar", segir Guðrún Gyða Franklín sem er þessa dagana að setja spilið Bílabingó á markað hér á landi.

Bílabingóspjaldið hefur 25 myndir ýmist af dýrum, bílum, heyböggum, umferðarskiltum og öðru sem verður á vegi ferðalanga á leið sinni um landið. Spilið gengur út á það að spilamaður lokar fyrir gluggann sem er með mynd af því sem hann sér og vinnur leikinn þegar hann er búinn að finna alla 25 hlutina.

Guðrún Gyða segir að allt frá því að gamla spilið týndist hafi hún ávallt haft augun opin fyrir nýju spili en aldrei fundið neitt í líkingu við þetta. „Það var svo fyrir tveimur árum sem ég fór hringinn í kringum landið með fjölskylduna mína að ég útbjó svipað spil fyrir börnin mín. Ég prentaði myndir út heima og plastaði spjaldið. Þau notuðu svo límmiða til að líma yfir myndirnar," segir Guðrún Gyða. Það var svo í barneignarleyfinu á síðasta ári sem hún fór að hanna spilið í þeirri mynd sem það er í dag.

Samkvæmt Guðrúnu komu margar góðar hendur að spilinu. Guðrún sá um alla hönnun en fékk aðstoð frá Steinbirni Logasyni, grafískum hönnuði, með að hanna myndirnar á spjaldinu. Svansprent prentaði myndirnar og Múlalundur gerði pappaspjaldið. Spírall í Hafnarfirði skar þetta síðan allt út og Guðrún ásamt fjölskyldu, vinum, fimleikastelpum úr Gerplu í fjáröflun og sjálfboðaliðum frá Veraldarvinum sátu tímunum saman í einni kennslustofu í Langholtsskóla og sáu um fráganginn.

„Ég vona að þetta verði til þess að krakkar leggi frá sér tölvuleikina og ferða-dvd-spilarana og horfi út um gluggann. Fylgist með náttúrunni og skoði Ísland," segir Guðrún Gyða.

Bílabingóið er nú komið til sölu hjá flestöllum verslunum N1 og Samkaupum um land allt.

linda@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.