Lífið

Sonur Nönnu í fótspor Ramseys

Hjalti Nönnuson er liðtækur í eldhúsinu og hefur nú þýtt kokkabók Gordons Ramsay.Fréttablaðið/Arnþór
Hjalti Nönnuson er liðtækur í eldhúsinu og hefur nú þýtt kokkabók Gordons Ramsay.Fréttablaðið/Arnþór

Hjalti Nönnuson hefur lokið við að þýða sína fyrstu bók; uppskriftabók stjörnukokksins og Íslandsvinarins Gordons Ramsey sem á að koma út í október. Hjalti á ekki langt að sækja mataráhugann en hann er sonur Nönnu Rögnvaldardóttur matargúrús. Mataráhuginn kviknaði samt ekki fyrr en hann flutti að heiman.

„Mamma benti á mig í þetta verkefni því hún veit að ég hef mikinn áhuga á mat og eldamennsku og taldi mig vera fullfæran í að þýða þessa bók," segir Hjalti en hann er ekki menntaður kokkur. Á meðan hann þýddi bókina eldaði Hjalti þær uppskriftir í bókinni sem honum leist á.

„Gordon virðist vera mjög hrifinn af smokkfiski og trúðu því eður ei, en ég er mjög matvandur og sneiddi því hjá þeim uppskriftum í bókinni sem meðal annars innihéldu smokkfisk," segir Hjalti hlæjandi og bætir við að fólk verði oft mjög hissa þegar það uppgötvar að hann sé matvandur komandi af svona miklu matarheimili.

„Systir mín er yfirlýst grænmetisæta og ég mundi til dæmis frekar borða hrá dekk en sveppi svo við mamma erum löngu búin að komast að samkomulagi í þessum málum. Hún eldar það sem henni sýnist og verðum við bara að sneiða fram hjá því sem okkur líkar ekki."

Í bókinni Eldað um veröld víða tekur Gordon Ramsey saman uppskriftir frá sínum tíu uppáhaldsstöðum í heiminum og lögð er áhersla á hversdagsmat. Maður ætti því ekki að þurfa að vera neinn stjörnukokkur til geta eldað upp úr bókinni. „Ramsey vill meina að núna sé matur orðinn svo aðgengilegur, maður á að geta eldað mat frá öllum heimsálfunum sama hvar maður er staddur," segir Hjalti. - áp










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.