Lífið

Lire velur Skipið bestu glæpasöguna í Frakklandi

Stefán segir bókmenntamenningu mikla í Frakklandi og því sé þetta einstakur heiður.fréttablaðið/arnþór
Stefán segir bókmenntamenningu mikla í Frakklandi og því sé þetta einstakur heiður.fréttablaðið/arnþór

„Það er alveg æðislegt hvernig stemningin er fyrir bókinni úti í Frakklandi,“ segir Stefán Máni Sigþórsson, rithöfundur.

Franska bókmenntatímaritið Lire valdi á dögunum bók Stefáns Mána Skipið bestu glæpasögu ársins. Lire gaf bókinni fjórar stjörnur í nýjasta hefti sínu sem er tileinkað glæpasögum. Stefán Máni skýtur öðrum rithöfundum ref fyrir rass þar sem Skipið er eina bókin sem fær fjórar stjörnur.

„Ég fékk tímaritið sent frá þeim. Þetta er svolítið stórt og rosalega flott tímarit,“ segir Stefán. „Ekkert of akademískt þannig að það er breiður hópur sem les það. Þeir velja tíu bestu glæpasögur ársins og völdu Skipið í fyrsta sæti. Einnig var hún eina bókin sem þeir gáfu fjórar stjörnur. Það er auðvitað alveg magnað þar sem þetta er fyrsta bókin mín í Frakklandi.“

Gagnrýnendur Lire spara ekki stóru orðin í umsögnum sínum um bókina og segja hana meistaraverk. Þá er bygging sögunnar sögð þrekvirki sem heldur stöðugri spennu. Ef þetta er ekki nóg, þá er talað um að Stefán Máni sé með öllu óhræddur, textinn sé reiðilegur, harmrænn og hamslaus. Loks segir gagnrýnandi að Stefán ríghaldi lesandanum allt að síðustu blaðsíðu. Þegar hann leggi svo loks bókina frá sér sé hann ringlaður og viti í raun ekki hvert eigi að leita.

Stefán segir að sala á Skipinu hafi rokið upp í kjölfarið á valinu og franska forlagið sé búið að prenta annað upplag. Þá hefur forlagið tryggt sér útgáfuréttinn á bókinni Svartur á leik eftir Stefán og lýst yfir áhuga á framtíðarverkum hans. „Það koma kannski 100.000 bækur út í Frakklandi á ári og líftíminn er ekki langur,“ segir hann. „En þetta hleypti lífi í söluna aftur sem er mjög flott.“

linda@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.