Viðskipti erlent

Sænska öryggislögreglan og FBI stoppuðu söluna á Saab

Í ljós hefur komið að sænska öryggislögereglan og bandaríska alríkislögreglan FBI stoppuðu söluna á Saab í desember s.l. Ástæðan voru tengsl Antonovgroup við skipulagða glæpastarfsemi í Rússlandi. Salan fór síðan fram í þessum mánuði eftir að Antonovgroup var komin úr kaupendahópnum.

Í frétt um málið á Dagens Industri segir að þegar salan var nær kominn á koppinn í desember s.l. hafi sænska öryggislögreglan sent skýrslu um Antonovgroup til höfuðstöða FBI í Bandaríkjunum. Samkvæmt skýrslunni hafði Antonovgroup náin fjárhagsleg tengsl við rússneska glæpamenn. Eftir að FBI hafði staðfest upplýsingarnar úr skýrslunni gaf FBI út skipun til General Motors um að hætta við söluna á Saab.

Eins og kunnugt er af fréttum hefur hollenski sportbílaframleiðandinn Spyker fest kaup á Saab. Spyker var einnig helsti kaupandinn í desember en þá í samstarfi við Antonovgroup.

Þessar upplýsingar hafa verið staðfestar af Hans Lindblad skrifstofustjóra í sænska fjármálaráðuneytinu. „Antonovfjölskyldan er dottin út úr myndinni og hefur enga stöðu í Saab-Spyker," segir Lindblad.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×