Enski boltinn

Kemur til greina hjá Kanu að spila með Portsmouth

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kanu, til hægri, í leik með Portsmouth.
Kanu, til hægri, í leik með Portsmouth. Nordic Photos / Getty Images

Umboðsmaður sóknarmannsins Nwankwo Kanu segir að hann sé nú að fara yfir tilboð frá Portsmouth og að til greina komi að spila með félaginu í ensku B-deildinni á næstu leiktíð.

Portsmouth hefur átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum og féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor.

„Við höfum fengið samningstilboð og eru viðræður nú í gangi," sagði umboðsmaðurinn við enska fjölmiðla í dag. „Hann hefur hingað til spilað í deild þeirra bestu en er opinn gagnvart því að spila í neðri deild."

Portsmouth er nú í greiðslustöðvun og skiptastjórinn Andrew Andronokou hefur rætt um að enginn leikmaður fái hærri laun en tíu þúsund pund á viku.

„Peningar hafa aldrei skipt Kanu höfuðmáli," sagði umboðsmaður hans. „Við skiljum vel afstöðu skiptastjórans."

Kanu mun spila með Nígeríu á HM í Suður-Afríku sem hefst á föstudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×