Innlent

Safna fyrir hjólastólarampi handa fötluðum dreng

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ragnar Emil er lífsglaður drengur og brosmildur
Ragnar Emil er lífsglaður drengur og brosmildur
Ragnar Emil Hallgrímsson er þriggja ára drengur sem aðeins nokkurra mánaða gamall greindist með alvarlegan hrörnunarsjúkdóm. Vegna veikinda sinna þarf Ragnar Emil að nota öndunarvél og fer ferða sinna í rafmagnshjólastól.

Þegar Ragnar Emil var greindur með hrörnunarsjúkdóminn SMA-1 var talið að hann næði því ekki að verða tveggja ára. Hann er nú orðinn elstur þeirra sem hafa greinst með sjúkdóminn hér á landi, foreldrum hans til mikillar gleði.

Stýrir hjólastólnum sjálfur

Ragnar er á leikskóla hluta úr degi þar sem hann getur farið í öndunarvél þegar þörf krefur en hann getur ekki farið í hjólastólnum út af heimili sínu þar sem þar er enginn rampur. Gunnar Þór Sigurjónsson, frændi Ragnars Emils, hefur því í samstarfi við ömmu drengsins og vinkonu þeirra tekið sig til og skipulagt fjáröflun. „Eitt af markmiðunum er að hann geti fengið lítinn ramp þannig að hann getið farið út úr húsinu í hjólastólnum," segir Gunnar Þór. Auk þess þarf að malbika malarplanið sem er fyrir utan húsið til að hægt sé að aka stólnum þar. Stóllinn er rafstýrður og Ragnar Emil getur því sjálfur stýrt honum.

Gunnar Þór og ættingjar hans hafa fengið til liðs við sig fjölda sjálfboðaliða sem ætla að fara í verslanir í Hafnarfirði, heimabæ Ragnars Emils, og selja barmmerki.

Heldur upp á Rex úr Toy Story

Hugmyndin að merkjunum kemur frá ömmu Ragnars Emils en mynd af honum er á hverju merki auk nafns. Hvert merki verður selt á fimm hundruð krónur og lét fjölskyldan búa til þrjú þúsund merki.

Gunnar Þór segir Ragnar Emil lífsglaðan dreng þrátt fyrir allt. „Hann brosir mikið," segir hann.

Hendurnar eru það eina sem Ragnar Emil hefur góða stjórn á og hefur hann mjög gaman af því að leika sér með fígúrur úr teiknimyndinni Toy Story. „Ég held að uppáhaldið hans sé risaeðlan Rex," segir Gunnar Þór.

Haffi Haff selur merki

Hann segir fólk hafa tekið því mjög vel þegar þau hafa leitað eftir sjálfboðaliðum til að selja merki en þau þiggja vel nokkra í viðbót. Þeir sem hafa áhuga á að leggja þeim lið með því að selja merki geta haft samband við Gunnar í síma 8665744.

Meðal þeirra sem hafa sett sig í samband við Gunnar er tónlistarmaðurinn Haffi Haff sem selur merki í Hafnarfirði í dag.

Merkjasalan fer fram frá klukkan tvö og stendur fram á kvöld. Einnig verða seld merki allan daginn á morgun.

Ragnar Emil er einnig með söfnunarreikning sem hægt er að leggja inn á. Númerið er: 140-05-015497 og kennitalan 250607-2880.

Hægt er að fræðast meira um Ragnar Emil á vefsíðunni hans.

Þar má sjá myndband þar sem hann er að æfa sig á rafmagnshjólastólnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×