Innlent

Saksóknaranefnd valin á þriðjudag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alþingi velur saksóknara og saksóknaranefnd á þriðjudag. Mynd/ Anton.
Alþingi velur saksóknara og saksóknaranefnd á þriðjudag. Mynd/ Anton.
Saksóknaranefnd Alþingis vegna málshöfðunar gegn Geir Haarde verður kosin á þriðjudag, strax eftir að saksóknari og varasaksóknari hafa verið kjörnir. Nefndin er kosin á grundvelli laga um landsdóm og er gert ráð fyrir að um fimm manna nefnd sé að ræða sem fylgist með málinu og sé saksóknara Alþingis til aðstoðar.

Samkvæmt heimildum Vísis mun þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tilnefna mann í saksóknaranefndina þrátt fyrir að allir þingmenn flokksins hafi greitt atkvæði gegn ákæru á hendur Geir Haarde. Vísir hefur líka heimildir fyrir því að skiptar skoðanir hafi verið um það í þingflokki sjálfstæðismanna um það hvort flokkurinn ætti að tilnefna mann í nefndina.

Sjálfstæðismenn telja að skipa hefði átt saksóknaranefndina og saksóknara um leið og kosið var um ákæruna gegn Geir. Á þetta sjónarmið benti Andri Árnason, verjandi Geirs, einnig í bréfi sem hann sendi forseta Alþingis fyrr í vikunni.






Tengdar fréttir

Verjandi Geirs vill að málið verði fellt niður

Verjandi Geirs Haarde, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, vill að Alþingi felli niður málshöfðun gegn Geir vegna meintra brota á ráðherraábyrgð. Þetta kemur fram í bréfi Andri Árnason, lögmaður Geirs, sendi forseta Alþingis í fyrradag, samkvæmt heimildum Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×