Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar hefur hækkað um 12,5% í ár

Raungengi krónu hækkaði í ágústmánuði um 2,1% frá fyrri mánuði, sé miðað við hlutfallslegt neysluverð. Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans var vísitala raungengis á ofangreindan mælikvarða 76,6 stig í júlí. Það sem af er ári hefur raungengið hækkað um 12,5% á þennan mælikvarða.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir ennfremur að þá hafi raungengið hækkað um rétt tæp 20% síðan það var hvað lægst í kjölfar hrunsins. Þrátt fyrir að raungengið hafi hækkað undanfarna mánuði er það enn afar lágt í sögulegu samhengi, og lætur nærri að það sé fjórðungi undir meðaltali síðustu áratuga.

Þessi þróun er í samræmi við hækkun á nafngengi krónunnar á sama tímabili, en nafngengi krónu var 2% hærra í ágúst en það hafði verið í júlí að meðaltali og þá hækkaði vísitala neysluverðs um 0,2% í ágúst.

„Líklega mun raungengið hækka enn frekar þegar fram líða stundir. Rökin fyrir því eru þau að raungengið er á mælikvarða verðlags enn langt undir langtímameðaltali og að okkar mati enn nokkuð undir því raungengi sem tryggir jafnvægi á utanríkisviðskiptum þjóðarbúsins. Hversu mikil sú hækkun verður, að hve miklu leyti hækkunin mun eiga sér rót í hækkun á innlendu verðlagi og launum, og hversu langan tíma það tekur að ná því gengi sem tryggir umrætt jafnvægi er hins vegar ómögulegt að segja til um," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×