Viðskipti innlent

Mikill viðsnúningur á íbúðamarkaðinum í sumar

Greining Íslandsbanka segir að mikill viðsnúningur til hins betra hafi orðið á íbúðamarkaðinum hérlendis í sumar. Kaupsamningum hafi fjölgað um 50% miðað við sama tíma í fyrra.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að sumarið sé yfirleitt rólegur tími á fasteignamarkaði, en viðskipti hafa þó verið heldur líflegri nú í sumar á íbúðamarkaði en á sama tíma fyrir ári. Þannig voru heldur fleiri kaupsamningar um íbúðarhúsnæði gerðir nú í júní, júlí og ágúst, eða samtals um það bil 750 samningar á landinu öllu sem er aukning um 250 samninga frá því á sama tíma fyrir ári síðan eða um 50%.

„Þetta er mikill viðsnúningur frá því sem var síðasta sumar þegar velta dróst saman um 40% frá sama tímabili fyrra árs. Bendir það til þess að veltan á íbúðamarkaði sé nú að taka við sér á nýjan leik eftir að hafa verið í miklum dvala undanfarin tvö ár," segir í Morgunkorninu.

Engu að síður er veltan enn langt frá því sem áður var, en sumarið 2007 voru að meðaltali gerðir 1.000 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði í mánuði hverjum. Samhliða því sem aukinn skriður virðist vera að koma á íbúðamarkaðinn er að draga úr sókn í leiguhúsnæði.

Fyrstu sjö mánuði þessa árs fækkaði leigusamningum um 3,5% frá sama tímabili fyrra árs, sem er viðsnúningur frá þeirri miklu aukningu í þinglýsingu leigusamninga sem ríkt hefur sleitulaust frá bankahruninu. Þá hefur einnig hægt á verðlækkunum íbúðarhúsnæðis undanfarið en þetta virðist allt benda til þess að íbúðamarkaðurinn sé nú kominn yfir það versta í þessari niðursveiflu.

Þrátt fyrir að útlit sé nú fyrir að framundan sé líflegri íbúðamarkaður en sést hefur undanfarin misseri er enn enginn viðsnúningur sjáanlegur í íbúðafjárfestingu. Þannig dróst íbúðafjárfesting saman um rétt tæp 45% á öðrum fjórðungi þessa árs borið saman við sama tímabil fyrir ári síðan. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart í ljósi þess hversu mikið er enn til af nýjum eða næstum tilbúnum íbúðum. Þetta eru leifarnar af þeirri gríðarlegu fjárfestingu sem átti sér stað í íbúðarhúsnæði á árunum fyrir hrun, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×