Viðskipti innlent

Telur líkur á að Seðlabanki sporni við frekari styrkingu krónunnar

Leiða má líkur að því að Seðlabankinn kunni að sporna við frekari styrkingu krónunnar með kaupum sínum á gjaldeyri á markaðinum hérlendis. Ástæðan er sú að með sterkari krónu veikist samkeppnisstaða innlendra atvinnuvega sem myndi draga úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum.

Þetta kemur fram í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar segir að það eitt og sér hefði síðan áhrif á hagvöxt til lækkunar. Á móti kemur að skuldsetning einkageirans er mikil í erlendri mynt og eru tekjur litlar eða engar í erlendri mynt.

Seðlabankinn hefur hafið kaup á gjaldeyri en fyrstu kaupin höfðu léttvæg áhrif á gengi krónunnar, enda vilji bankans að svo verði.

Skuldastaðan kann þó að breytast til batnaðar því algengar myntir í erlendum lánum eru japanskt jen og svissneskur franki. Þær myntir eru mjög sterkar á móti öðrum helstu myntum og líklegt að þær gefi eftir seinni hluta ársins.

Einnig gæti staða þessara aðila breyst verulega þegar Hæstiréttur hefur dæmt um vexti gengistryggðu lánanna. Það fer þó eftir því hversu víðtækur dómurinn verður, þ.e. hversu mikið fordæmisgildi hann hefur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×