Fótbolti

Beckham: Messi einn sá besti sem ég hef séð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham í leik með enska landsliðinu.
David Beckham í leik með enska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images

David Beckham á von á því að Argentínumaðurinn Lionel Messi muni slá í gegn með landsliði Argentínu á HM í Suður-Afríku í sumar.

Messi hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Barcelona en hefur ekki náð sömu hæðum með landsliðinu.

Beckham telur að hann geti engu að síður látið ljós sitt skína í sumar. „Messi er einn besti leikmaður sem ég hef spilað við og einn sá besti sem ég hef nokkru sinni séð. Það er ótrúlegt hvað býr mikið af hæfileikum í honum miðað við hvað hann er lítill," sagði Beckham í viðtali á heimasíðu FIFA.

„Hann hefur átt mjög góðu gengi að fagna og er þar að auki mjög viðkunnalegur."

Beckham segir að Englendingar hafi þó ekki ástæðu til að óttast neinn andstæðing enda með sterkt lið á HM.

„Við erum með marga framúrskarandi leikmenn eins og Wayne Rooney, Steven Gerrard, Frank Lampard, John Terry og Rio Ferdinand."

„Við erum heppnir að eiga svo marga sterka leikmennn. Fabio Capello er einnig sérstakur knattspyrnustjóri og býr yfir mikilli reynslu. Hann veit hvernig á að vinna leiki og vinna mót."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×