Viðskipti innlent

Mikilvægt að Icesave samningar takist fljótlega

Forstjóri Eftirlitsstofnunar EFTA segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki óskað eftir frekari frestun á að skila svari sínu vegna Icesave. Hann segir mikilvægt að samningar takist við Breta og Hollendinga fljótlega. Ef stjórnvöld nái hins vegar að sannfæra stofnunina um að mat hennar á greiðsluskyldu ríkisins sé rangt verði málið látið niður falla.

Lokafrestur stjórnvalda til að andmæla Eftirlitsstofnun EFTA vegna Icesave málsins rennur út á þriðjudaginn. Við náðum tali af forstjóra ESA í dag, sem segist búast við svarinu þá.

„Okkur hefur ekki borist nein beiðni um frestun á núverandi skilafresti, 7. desember," segir Per Sanderud, forstjóri Eftirlitsstofnunar EFTA.

Í fyrsta mati sínu kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Íslendingum beri skylda til að greiða breskum og hollenskum sparifjáreigendum þá lágmarkstryggingu sem tilskipun um innistæðutryggingar kveður á um. Til þess að fullnægja þessu þurfi að semja við Breta og Hollendinga, og best væri að gera það sem fyrst að mati forstjóra ESA.

„Við vitum að íslenska ríkisstjórnin ætlar að leggja frumvarpið fyrir Alþingi og þá kemur í ljós hvort það samþykkir samninginn og ef það gerir það verður enginn málarekstur," segir Per.

Ef svar berst frá íslenskum stjórnvöldum sem ekki dugar til að snúa ESA við í afstöðu sinni mun stofnunin senda eitt lokaviðvörunarbréf og síðan fara með málið fyrir EFTA dómstólinn. Ef hins vegar tækist að sannfæra ESA um að upphaflega mat þeirra á ábyrgð Íslendinga sé rangt, verður málið látið niður falla - og þannig viðurkennt að íslenska ríkinu beri ekki skylda til að greiða Icesave.

„En þá verðið þið að koma með mjög góðan lögfræðilegan rökstuðning fyrir því að fyrsta mat okkar hafi ekki verið rétt," segir Per.

Eins og fréttastofa hefur greint frá liggja fyrir drög að samkomulagi milli saminganefndar Íslands, Bretlands og Hollands, og tekist hefur að semja um meginatriði málsins. Þó munu enn nokkur ágreiningsmál standa út af borðinu. Heimildir herma að staða málsins hafi verið kynnt þingflokkum stjórnarandstöðunnar nýlega.


Tengdar fréttir

Drög að Icesave samkomulagi kynnt

Drög að nýju Icesave samkomulagi hafa verið kynnt þingflokkum stjórnarandstöðunnar. Samninganefndir Íslands, Bretlands og Hollands stefna að því að ljúka við gerð samnings sem allra fyrst.

Nýtt samkomulag nánast tilbúið

Margframlengdur frestur stjórnvalda til að skila svari til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna Icesave rennur út á þriðjudag. Mikið er þrýst á þingmenn stjórnarandstöðunnar að veita drögum að nýjum Icesavesamningi blessun sína, svo komast megi hjá því að málið fari fyrir EFTA-dómstólinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×