Viðskipti erlent

Miklar bensínbirgðir halda olíuverðinu niðri

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkar í morgun í kjölfar fregna frá Bandaríkjunum að olíubirgðir landsins hafi aukist um 7,2 milljónir tunna í síðustu viku. Þá hafa bensínbirgðir Bandaríkjanna ekki verið meiri síðan í mars 1999 en þær nema nú 228,2 milljónum tunna.

Framangreindar upplýsingar koma frá The American Petroleum Institute. Á föstudag er síðan von á nýjum tölum frá orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna og er þess vænst að þær sýni áframhaldandi aukningu á olíubirgðum landsins um 1,5 milljónir tunna í þessari viku.

Victor Schum stjórnandi hjá Purvin & Gertz í Singapore segir í samtali við Bloomberg fréttaveituna að þessar miklu birgðir hafi það í för með sér að heimsmarkaðsverð á olíu verði ekki hærra en um 70 dollara á tunnuna í náinni framtíð.

WTI olían á markaðinum í New York lækkaði um 0,3% í morgun og stendur í 73,5 dollurum á tunnuna. Brent olían á markaðinum í London lækkaði um 0,5% og stendur í 71,8 dollurum.

Aðrar hrávörur hækka lítilsháttar í morgun þrátt fyrir áframhaldandi styrkingu dollarins. Þetta á við um gull, kopar og ál. Álverðið á markaðinum í London er aftur komið upp fyrir 2.000 dollara á tonnið en það fór niður úr því verði fyrr í vikunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×